Skip to main content

FFÍ býður Grindvíkingum orlofshús sín

Eftir nóvember 27, 2023Fréttir

Þessa dagana eru miklar væringar á Reykjanesi í kringum Grindavík. Allir íbúar Grindavíkur hafa þurft að yfirgefa heimili sín og algjör óvissa ríkir um hvenær þeir geta snúið aftur til baka. Flugfreyjufélag Íslands, ásamt öðrum stéttarfélögum, hefur boðið fram orlofshús sín til handa fjölskyldum frá Grindavík sem hafa ekki í önnur hús að venda. FSRE og RKÍ vinna að því að þarfagreina stöðuna og úthluta íbúum Grindavíkur heppilegu húsnæði eftir aðstæðum og fjölskyldustærð hjá hverjum og einum.

FFÍ á þrjú orlofshús; eitt á Akureyri, annað í Húsafelli og það þriðja í Grímsnesi. Húsin eru mjög mismunandi hvað varðar stærð, aðstæður og fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Mögulega henta þau öll fyrir Grindvíkinga en þó er líklegra að aðeins hluti húsanna komi að notum. Í öllu falli standa þau öll til boða og hefur félagið sett sig í samband við þá sem áttu bókað í orlofshúsin næstu vikurnar. Allir sýna aðstæðunum mikinn skilning og ber að þakka þeim fyrir að umbera óvissuna sem þessu fylgir. Málin verða svo unnin áfram eins og þeim framvindur.

Flugfreyjufélagið sendir sínar allra bestu kveðjur til Grindvíkinga og allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna þeirra miklu náttúru umbrota sem nú eiga sér stað á Reykjanesi.