Skip to main content

Siðareglur Flugfreyjufélagsins

1. Umfang

Siðareglur þessar ná til félagsmanna sem sitja í stjórnum, nefndum og ráðum, trúnaðarmanna, starfsfólks og annarra sem koma fram fyrir hönd félagsins eða vinna að málum sem tengjast starfsemi þess. Ákvæðin eiga við hvort sem um er að ræða launuð eða ólaunuð störf í þágu félagsins.

2. Samskipti og samstarf

Við sýnum ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum og höfum fagmennsku, heiðarleika, heilindi og trúnað að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Við gætum þess að einstaklingum sé ekki mismunað, t.d. vegna kyns, kynvitundar, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.

3. Hagsmunaárekstrar

Við forðumst árekstra milli hagsmuna félagsmanna annars vegar og fjárhagslegra hagsmuna okkar og fjölskyldu okkar hinsvegar. Okkur ber að vera vakandi yfir öllum tengslum sem geta leitt til hagsmunaárekstra og tökum ekki þátt í meðferð máls eða samningaviðræðum ef aðstæður eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni í efa.

4. Fjármál

Við förum vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir eða höfum aðgang að gegnum störf okkar. Við fylgjum ávallt bókhaldslögum og leggjum áherslu á aðskilnað starfa eftir fremsta megni.

5. Starfshættir

Við störfum samkvæmt skráðum verkferlum og stuðlum að gagnsæjum starfsaðferðum með rökstuddum ákvörðunum á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Við veitum engum fyrirgreiðslu á grundvelli persónulegra tengsla eða hagsmuna.

6. Gjafir

Okkur er óheimilt að þiggja persónulegar gjafir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi okkar í nafni félagsins.

7. Trúnaður

Allir þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið kynna sér siðareglur þessar og þeir sem við á skrifa undir yfirlýsingu um trúnað varðandi málefni félagsmanna og mál sem varða trúnað innan FFÍ. Við gætum ávallt að sjónarmiðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

8. Endurskoðun

Siðareglur þessar eru settar af stjórn og trúnaðarráði FFÍ. Starfsfólk skrifstofu hefur umsjón með endurskoðun siðareglna og að þær séu endurútgefnar eftir aðalfund á tveggja ára fresti.

 

Staðfest á aðalfundi í maí 2023