Skip to main content

Svölurnar

Félagið var stofnað þann 5. maí 1974

Árið 1974 hittust nokkrar Loftleiða flugfreyjur og viðruðu þá hugmynd að stofna félag fyrrverandi og starfandi flugfreyja. Eins og konum einum er lagið var drifið í fyrsta fundi 14. mars það sama ár og formlega var svo félagið stofnað þann 5.maí 1974. Starfsárið hófst svo með mánaðarlegum fundum um haustið og var flugfreyjum Flugfélags Íslands boðið að vera með og fljótlega varð félagið opið öllum sem hafa borið starfsheitið flugfreyja eða flugþjónn.  Þetta sama haust var félaginu gefið þetta fallega og táknræna nafn Svölurnar.

Félagið var frá upphafi góðgerðarfélag

Svölurnar byggja starf sitt á þeirri hugmynd að efla og viðhalda góðum kynnum auk þess að fræðast og skemmta sér um leið og þær láta gott af sér leiða. Félagið var frá upphafi góðgerðarfélag og hefur alla tíð haldið úti öflugri fjáröflunarstarfsemi .  Aðalfjáröflun Svalanna er útgáfa jólakorta sem hafa ýmist verið hönnuð af listfengum Svölum eða velunnurum þeirra og hafa allir gefið vinnu sína. Að sjálfsögðu leggja svo félagskonur fram ómælda vinnu við pökkun og dreifingu kortanna og allir sölustaðir selja kortin án þóknunar.

Tæki fyrir stofnanir og spítaladeildir

Í gegnum árin hefur ýmislegt annað verið gert til að afla fjár svo sem flóamarkaðir, bingo, happdrætti og 1. maí kaffi. Auk þess greiða Svölurnar félagsgjöld og valkvæð styrktarfélagsgjöld. Allt þetta hefur gert félaginu kleift að kaupa alls kyns tæki fyrir  stofnanir og spítaladeildir og veita styrki til framhaldsnáms í þágu þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Of langt yrði að telja upp allar þær milljónir sem Svölurnar hafa látið af hendi rakna en þær hafa m.a.styrkt MS félagið og MND félagið myndarlega undanfarin ár.

Tekið er vel á móti nýjum Svölum og og það er góð tilfinning að þessi  öflugi hópur láti gott af sér leiða til samfélagsins um leið og þær njóta skemmtilegra samvista.