ASÍ gagnrýnir aðgerðir Primera
„Miðstjórn ASÍ áréttar að um kaup og kjör þessara áhafna fer samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum, hvort heldur litið er til laga um starfsmannaleigur eða laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands.Þetta segir í ályktun miðstjórnar ASÍ þar sem harðlega er mótmælt „aðför Primera Air að réttindum launafólks hér á landi.“
Greint hefur verið frá því að starfsfólki Primera á Íslandi hefur verið sagt upp störfum en grískar flugfreyjur ráðnar inn sem verktakar í gegnum erlenda áhafnaleigu. Til stendur að flytja starfsemi félagsins til Lettlands og er aðgerðin liður í því. Þá hefur starfsfólki í Svíþjóð verið sagt upp af sömu sökum. Stjórnarformaður Primera, Andri Már Ingólfsson, hefur hins vegar sagt það eðlilega ráðstöfun að nota áhafnaleigur fyrir hluta af þeirri starfsemi til einföldunar á starfsmannamálum, enda þurfi sumir flugliðar að flytja sig á milli landa eftir verkefnum. Þá hefur hann bent á að eðli starfseminnar sé í grunninn gjörólík venjulegu áætlunarflugfélagi sem flýgur allar sínar ferðir frá sama stað.
Starfsstöð þar sem vinna hefst og endar
Tekið er fram að Primera Air stundi reglubundið flug frá Íslandi til nokkurra áfangastaða í Evrópu með flugvélum skráðum utan Íslands en á EES-svæðinu sem leigðar eru með áhöfn til þess að sinna þessu flugi.
ASÍ Alþýðusamband Íslands mbl.is/Hjörtur
Áhafnir þessara flugvéla, alveg eða að hluta, eiga tímabundið eða varanlega aðalstarfsstöð sína hér á landi þar sem vinna þeirra hefst og endar.
„Alþýðusamböndin á öllum Norðurlöndunum líta þennan rekstur og aðferðafræði lággjaldaflugfélaganna alvarlegum augum og hyggjast hindra brot þeirra með öllum tiltækum ráðum,“ segir í tilkynningu ASÍ.
„ASÍ mun ekki liggja á liði sínu í því efni og leitað verður allra leiða til þess að stöðva hina ólögmætu starfsemi.“
Þá skorar félagið að lokum á íslensk stjórnvöld að nýta lögbundnar heimildir sínar til þess að stöðva þessa brotastarfsemi félagsins þegar í stað og bent er á heimildir í fyrrnefndum lögum.