Orlofsfréttir - sumarhúsin
Kæru félagsmenn
Eins og fram hefur komið áður þá seldi Orlofssjóður FFÍ annan sumarbústaðanna okkar í Húsafelli. Einnig var íbúðin á Akureyri, Hafnarstræti 100, seld í nóvember. Ástæður þess að ákveðið var að fara í þessar breytingar var einfaldlega sú að rekstur þessara orlofskosta stóð ekki undir sér. Verulega hafði dregið úr útleigu nema yfir sumartímabilið og komið að ýmsu viðhaldi.
Íbúðin á Akureyri var í eigu félagssjóðs og greiddi orlofssjóður leigu til hans ásamt því að standa undir rekstrarkostnaði. Þar sem þessir 2 sjóðir eru í vörslu stéttarfélagsins undir ólíkum formerkjum var það mat bókara og endurskoðanda að best væri að félagssjóður kæmi ekki að orlofsmálum. Skoðaðir voru margir kostir og ákveðið að fjárfesta áfram í eign á Akureyri. Besti kosturinn var að mati orlofsnefndar og stjórnar FFÍ hús sem síðan var keypt núna í janúar.
Húsið er heilmikil fjárfesting og því miður sér orlofssjóður ekki fram á að annar sumarbústaður verði keyptur á næstu misserum. Því verða aðeins 3 kostir í boði í sumar. Verið er að skoða hvort fýsilegt sé að leigja bústað í 3 mánuði í sumar eða hvort aðrir kostir séu í stöðunni.
Húsið sem keypt var á Akureyri er í nýrri byggð í hlíðum Hlíðarfjalls, með frábæru útsýni um allan fjörð og örstutt á skíði á veturna. Húsið stendur við Hrafnaland og er nr.8. Svæðið kallast Hálönd og eru öll húsin eins að utan en orlofsnefndin hefur gert ýmsar breytingar á innréttingum til að aðlaga það betur að okkar þörfum. Gistirými verður fyrir 6 í rúmum og 2 á dýnum.
Húsið er í 6 mín akstursfjarlægð frá miðbæ, 3 mín í næstu búð, golfvöllur í göngufæri og auðvitað hægt að renna sér úr fjallinu beint niður í hús. Það er skoðun okkar í nefndinni að þetta sé besti kosturinn bæði sem langtíma fjárfesting og frábær orlofskostur bæði að sumri og vetri. Því miður mun það ekki verða tilbúið fyrir páska en vonandi í byrjun maí.
Opnað var fyrir umskóknir um páskatímabilið í dag en ekki verður úthlutað fyrr en allir félagsmenn hafa fengið apríl skrá. Þannig gefst öllum tækifæri á að sækja um.
Með von um frábært orlofssumar.
Nefndin.