Þann 20. nóvember sl. dæmdi Félagsdómur verkfallsboðun Flugfreyjufélags Íslands á hendur lettneska flugfélaginu Primera Air Nordic ólögmæta þar sem formskilyrði laga nr. 80/1938 um aðkomu ríkissáttasemjara hefðu ekki verið uppfyllt. Þau skilyrði voru ekki uppfyllt þar sem ríkissáttasemjari, þrátt fyrir beiðni FFÍ, hafnaði að taka deiluna til sáttameðferðar vegna vafa um heimildir sínar um aðkomu að henni. Sá vafi er ekki lengur til staðar þar sem Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ríkissáttasemjari hefði átt að láta deiluna til sín taka.
Þessi dómur Félagsdóms felur aðeins í sér tímabundna töf á því ferli sem Flugfreyjufélagið, með aðstoð ASÍ og aðildarfélaga þess, hefur verið í um tveggja ára skeið og snýr að því að fá Primera Air Nordic til þess að ganga til kjarasamninga um þau störf sem unnin eru út frá Íslandi um borð í flugvélum félagsins.
Í kjölfar dómsins hefur FFÍ aflýst áður boðuðu verkfalli en lögmæt vinnudeila er enn til staðar. Hún verður nú send ríkissáttasemjara að nýju enda með öllu óásættanlegt að fyrirtæki á EES-svæðinu sendi hingað til lands starfsmenn, dulbúi stöðu þeirra sem „verktaka“ og greiði þeim brot af þeim launum sem greidd eru sambærilegum starfsmönnum flugfélaga sem stunda starfsemi hér á landi. Í því felast félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og ólögmæt samkeppni í íslensku atvinnulífi.