FFÍ stendur nú fyrir könnun meðal flugfreyja og flugþjóna. Á næsta ári eru kjarasamningar FFÍ við Icelandair lausir og við viljum vita hvaða áherslur skipta þig mestu máli. Í könnuninni er einnig spurt um starfsaðstæður, hvernig gengur að samræma fjölskyldu og atvinnulíf og fjárhagsstöðu. Markmið okkar er að afla sem bestra upplýsinga um stöðu félagsfólks okkar sem munu nýtast okkur í kjarasamningsviðræðum á næsta ári en til þess þurfum við á þinni hjálp að halda og vonum að þú sjáir þér fært að svara könnuninni.
Persónuvernd tryggð
FFÍ hefur falið Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins að framkvæma könnunina. Þátttakendum er hvorki skylt að svara einstökum spurningum könnunarinnar né könnuninni í heild. Þátttakendur geta verið þess fullvissir að meðferð persónuupplýsinga er í samræmi við lög um persónuvernd og persónuverndarstefnu Vörðu. Þess verður í hvívetna gætt að ekki verði hægt að rekja svör til einstakra svarenda.
Vinningar fyrir þátttöku
Þau sem vilja geta skráð netfang sitt í lok könnunarinnar og munu tveir þátttakendur vinna helgardvöl í orlofshúsum félagsins, utan sumar- og páskatímabila. Ekki er hægt að rekja saman netfangið sem gefið er upp og svör í könnuninni.
Hlekkur á könnunina hefur verið sendur til félagsfólks FFÍ í tölvupósti og einnig er hlekkinn að finna í FFÍ appinu.
Fyrirfram þakkir fyrir þína þátttöku