Skip to main content

Saga Flugfreyjufélags Íslands

Brýnt þótti að standa vörð um hagsmunamál flugfreyja

Flugfreyjufélag Íslands var stofnað 30. desember 1954. Stofnendur voru 15 starfandi flugfreyjur hjá Loftleiðum og Flugfélagi Íslands. Brýnt þótti að standa vörð um hagsmunamál flugfreyja, en sá var tilgangurinn með stofnun sameiginlegs félags. Á stofnfundinum voru lög hins nýja félags samþykkt og kosin stjórn.

Hið nýja félag hlaut nafnið Flugfreyjufélag Íslands – FFÍ . Árgjald var 50.00 kr, greitt fyrirfram, og fyrsti formaður FFÍ var Andrea Þorleifsdóttir.

Fyrstu verkefni stjórnarinnar voru að gera kjarasamninga við flugfélögin, en til hliðsjónar var hafður samningur frá erlendu flugfélagi. Jafnframt var stjórninni falið að athuga aðild að Alþýðusambandi Íslands. Þann 7. janúar 1955 undirritaði Flugfreyjufélag Íslands sinn fyrsta kjarasamning.

Á þeim árum sem liðin eru frá gerð þess samnings hafa baráttumál félagsins verið mörg og mikið breyst. Í fyrstu þótti sjálfsagt að flugfreyjur hættu störfum við 30 ára aldur eða ef þær giftu sig, en það átti síðar eftir að breytast enda sjálfsögð mannréttindi.

Flugfreyjur fengu flugpeninga til jafns við flugmenn

Flugfreyjur fengu flugpeninga til jafns við flugmenn en það var 1 króna og 50 aurar á tímann. Í löngum Ameríkuferðum fengu þær kojur til að hvílast í og þær hættu að þurfa að sitja á klósettunum í flugtaki og lendingu. Síðar var hámarksaldur hækkaður og meðal annars var samið um barneignarleyfi.

Mörg önnur réttlætismál og betri kjör hafa fengist með gerð kjarasamninga og í dag getur Flugfreyjufélag Íslands státað af, að vera brautryðjandi annarra stéttarfélaga á Íslandi til að semja við atvinnurekanda um sveigjanleg starfslok og stofna séreignasjóð til að gera félagsmönnum kleift að láta af störfum við 63 ára aldur.

Flugfreyjur og flugþjónar um borð í flugvélum til að gæta öryggis farþega

Að þjónusta ferðalanga í farþegarými flugvéla hefur löngum verið það starf sem flugfreyjur og flugþjónar hafa verið kennd við. En á bak við þá ímynd er hin raunverulega ástæða þess að allt frá upphafi farþegaflugs ( 1930 ) var farið að hafa flugfreyjur og flugþjóna um borð í flugvélum til að gæta öryggis farþega.

Innan Flugfreyjufélags Íslands eru m.a. starfandi öryggisnefnd og vinnuverndarráð sem hafa eftirlit með því að öryggi, aðbúnaður og hollustuhættir um borð í flugvélum fullnægi settum kröfum.

Auk aðildar að Alþýðusambandi Íslands er FFÍ aðili að Norræna Flutningaverkamannasambandinu – NTF og Evrópska Flutningamannasambandinu – ETF.