Boðað hefur verið til kvennaverkfalls á kvennafrídaginn 24. október 2023. Konur og kvár eru hvött til þess að leggja niður launuð og ólaunuð störf og mæta á baráttufundi.
Kvennafrídagurinn var haldinn fyrst árið 1975 og lögðu þá um níutíu prósent kvenna á Íslandi niður störf til að sýna fram á mikilvægi sitt á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar höfðu. Síðan þá hafa konur verið hvattar til að leggja niður störf á ákveðnum tíma í samræmi við kynbundinn launamun en í ár verður leitað í upprunann og allur dagurinn er undir.
„Núna ákváðum við að raunverulega heiðra þessa upprunalegu merkingu, sem er að konur og kvár eru að leggja niður launuð og ólaunuð störf og það verður útifundur á Arnarhóli klukkan tvö og svo víðs vegar um landið allt,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sem er á meðal fjórtán fulltrúa ýmissa samtaka sem mynda framkvæmdastjórn Kvennaverkfalls.