Í dag 30. desember 2024 fagnar stéttarfélagið okkar Flugfreyjufélag Íslands 70 ára afmæli.
Það var einmitt þennan dag árið 1954 sem stofnfundur félagsins var haldinn, eftir að nokkrar flugfreyjur sem allar störfuðu hjá Loftleiðum höfðu, vikum og mánuðum saman, fundað um nauðsyn þess að flugfreyjur sameinuðust í stéttarfélagi sem skyldi standa vörð um réttindi þeirra, kaup og kjör.
Á þessum stofnfundi var fyrsta stjórn félagsins kjörin undir formennsku Andreu Þorleifsdóttur fyrsta formanns FFÍ. Til gamans má geta að árgjaldið var eitt hundrað krónur.
Það má með sanni segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þessar framsýnu konur funduðu að Laugavegi 33 í Reykjavík. Áherslur hafa að einhverju leiti þróast í takt við tímann þó að meginstef stofnfundar eigi enn við en í einni af tólf greinum sem samþykktar voru á þessum stofnfundi segir: “Félagið vill beita sér fyrir því að laun, vinnutími, aðbúnaður við vinnu og önnur kjör meðlimanna svari kröfum tímans og séu ekki lakari en tíðkast meðal annarra þjóða”. Sé fyrsti kjarasamningur félagsins skoðaður kemur í ljós að grunnur var strax í upphafi lagður að þeim kjarasamningi sem við enn styðjumst við og vinnum eftir þó útfærslur hafi þróast í tímans rás. Í þessum fyrsta samningi eru t.d. ákvæði um slysatryggingar, orlof, uppsagnarfrest auk greina um kaup, kjör, ferða- og dvalarkostnað. Eflaust þætti okkur þó skjóta skökku við að hafa í okkar samningi þau aldurstakmörk að flugfreyja mætti hefja störf átján ára og þyrfti að láta af þeim þrítug eða að þurfa að hætta störfum við giftingu, þó flugfélagið mætti endurráða hana teldist það heppilegt.
Fyrsti kjarasamningur FFÍ við viðsemendur Loftleiða var undirritaður 7. janúar 1955 og á okkar sjötíu ára tímabili höfum við haft ýmsa viðsemjendur s.s. auk Loftleiða, Flugfélag Íslands sem síðar sameinuðust í Flugleiðir, þá Arnarflug og Iceland Express og hin síðari ár Wow Air og Nice Air. FFÍ sótti um inngöngu í Alþýðusamband Íslands í febrúar árið 1957 og höfum verið innan þeirra vébanda allar götur síðan. Það ár var einnig undirritaður samningur til þriggja ára með ákvæði um líftryggingu og úthlutun einkennisbúnings eftir sex mánaða starf en fram að þeirri úthlutun klæddust flugfreyjur eigin klæðnaði.
Á sjöunda áratugnum urðu miklar breytingar í flugsamgöngum Íslendinga þegar Loftleiðir hófu flug á þotum og tóku kjarasamningar okkar mið af breyttu umhverfi. Helstu breytingar vörðuðu vakttíma og dagpeninga fyrirkomulag en auk þess kom inn í okkar kjarasamning slysa- og farangurstrygging og sjúkrasjóður var settur á laggirnar. Margar af þessum úrbótum komu til í tíð formennsku ekki ómerkari konu en Jóhönnu Sigurðardóttur, síðar þingkonu og Forsætisráðherra Íslands.
Við höfum mætt ýmsum áskorunum í tímans rás tengdar ytri aðstæðum. Í kringum stríð við botni Miðjarðarhafs í byrjun tíunda áratugarins ríkti mikil óvissa með flug og samgöngur og nýliðun var lítil sem engin árum saman. Við horfðum upp á flugheiminn breytast á einni nóttu 11. september 2001 vegna hryðjuverkaárásar á Tvíburaturnana í New York, borgar sem var einn fyrsti áfangastaður Loftleiða og enn er flogið til, stundum oft á dag. Í kjölfarið varð mikill samdráttur í flugi með tilheyrandi uppsögnum. Landið okkar varð fyrir miklum skakkaföllum í efnahagshruninu 2008 og ferðalög næstum lögðust af. Þá hafa ýmis flugfélög farið þrot og fjöldi félagsfólks misst atvinnu með litlum sem engum fyrirvara. Skemmst er einnig að minnast ástandsins sem skapaðist í heimsfaraldrinum en fjöldi félagsmanna fór þá á nokkrum vikum úr um eitt þúsund manns í rétt um 40 starfandi flugfreyjur og -þjóna. Á sama tíma háðum við virkilega krefjandi og erfiðar kjaraviðræður við okkar helsta viðsemjenda Icelandair sem við svo sannarlega tökum með okkur í reynslubankann. Við höfum því miður einnig misst kæra vini, vinnufélaga og félagsmenn í hörmulegum flugslysum við störf sín sem við minnumst við þessi tímamót.
Flugfreyjufélag Íslands er stolt, viðurkennt og löglegt stéttarfélag sem ber hagsmuni félagsfólks fyrir brjósti. Við gerum löglega kjarasamninga við okkar viðsemjendur, kynnum þá fyrir okkar félagsfólki og eftir samþykkt þeirra öðlast þeir löggildingu. Það er leið sem við höfum farið og munum fara um ókomna tíð. Við fylgjum leikreglum vinnumarkaðarins og lýðræðisríkisins.
Saga okkar stéttarfélags er saga óbilandi þrautsegju og baráttuanda og ekkert af þessu hefur áunnist án baráttu og samstöðu. Á sjötíu ára afmæli Flugfreyjufélags Íslands ber okkur að leiða hugann að sögunni, stöðunni í dag og hvert við viljum stefna. Við hugsum með hlýhug til okkar forvera sem enn þann dag í dag eru okkur góðar fyrirmyndir.
Við óskum félagsfólki FFÍ til hamingju með daginn, megi Flugfreyjufélag Íslands lifa, dafna og eflast um ókomna tíð.
Þá sendum við kærar hátíðar- og áramótakveðjur til alls okkar félagsfólks og fjölskyldna þeirra. Megi gleði og gæfa fylgja ykkur í leik og starfi á nýju ári.
Kær kveðja – f.h. stjórnar FFÍ
Berglind Kristófersdóttir,
formaður Flugfreyjufélags Íslands