Verkefni sjúkrasjóðs

 

 

Verkefni sjúkrasjóðs Flugfreyjufélags Íslands er að veita sjóðfélögum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum. Sjóðfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins. Ennfremur vinnur sjóðurinn að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.

Rétt er að nefna að sjóðurinn er atvinnurekendasjóður, þ.e. greitt er af félögum FFÍ en sjóðfélagar greiða ekki sjálfir í sjóðinn nema þeir ákveði það sérstaklega og er mælst til þess að lausráðin f/f geri það til að missa ekki niður rétt á greiðslum/styrkveitingum úr sjóðnum.
Rétt til styrkveitinga úr sjúkrasjóði eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

  • Greitt er af viðkomandi í sjóðinn þegar réttur til aðstoðar myndast.
  • Greitt hefur verið af félagsmanni til sjóðsins í a.m.k 6 mánuði (sé félagi lausráðinn endurnýjast réttur eftir 1. greiðslu til sjóðsins, hafi hann áður verið fullgildur félagi).
  • Hefur greitt í eða verið greitt af í annan sjúkrasjóð innan ASÍ (réttindi flytjast á milli).
  • Hafa greitt félagsgjald til FFÍ af fæðingarorlofslaunum.

 

Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að fara yfir allar umsóknir á einstaklingsgrundvelli og úrskurða um réttmæti greiðslu styrkja.

Félögum er bent á að kynna sér vel reglugerð sjúkrasjóðs Flugfreyjufélags Íslands í heild sinni varðandi forsendur styrkveitinga og skilyrði en fljótt yfir litið kemur sjóðurinn að eftirtöldum málum:

  • Dagpeningagreiðslum í veikinda- og slysaforföllum félaga, vegna langveikra eða fatlaðra barna undir 18 ára aldri og vegna alvarlegra veikinda maka.
  • Skoðun á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins eða á heilsugæslustöðvum. Á bæði við um legháls- og brjóstaskoðun. Einnig krabbameinsskimun í ristli og blöðruhálskirtli.   
  • Leit að húðkrabbameini. 
  • Sjúkraþjálfun, sjúkranuddi, hnykklækningum, nálastungum, heilsunudd, höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferðum hjá viðurkenndum aðilum.
  • Sálfræði-, félags og fjölskyldurráðgjöf.
  • Dvöl vegna endurhæfingar á Heilsustofnun NLFÍ eða annarri sambærilegri og viðurkenndri heilsustofnun.
  • Glasa-, smásjár- og tæknifrjóvganir.
  • Ættleiðing.
  • Laseraðgerð á augum og augnsteinaaðgerð.
  • Gleraugna- og linsukaup.
  • Meðferðir vegna stoðkerfisvandamála.
  • Æðahnútaaðgerð.
  • Fótaaðgerð hjá viðurkenndum fótaaðgerðafræðingi.
  • Sjúkrasokkabuxur og sjúkrasokkar.
  • Áfengis- og vímuefnameðferð.
  • Dánarbætur vegna andláts barna sjóðsfélaga.