Svefn
Svefn er manninum lífsnauðsynlegur til þess að viðhalda eðlilegri líkamlegri starfsemi. Ólíkir þættir geta haft áhrif á lengd og gæði svefnsins svo sem umhverfisþættir, starfskröfur, veikindi, lyfjagjafir, fjölskyldu og félagslegir þættir. Svefninn skiptist í tvö stig sem einkennast af mismunandi dýpt. Annarsvegar hvíldarsvefn (NREM), en á því svefnstigi hreyfast augun ekki, og hinsvegar draumasvefn (REM,) en þá hreyfast augun. REM-stigið skiptist ekki í frekari stig en NREM skiptist í fjögur stig ( I-IV) og tekur hvert stigið við af því næsta. Á fyrsta stiginu er einstaklingurinn í léttum svefni og áttar sig ekki á því ef hann er vakinn að hann hafi verið sofandi. Síðan dýpkar svefninn með hverju stigi og á stigi IV er svefninn dýpstur, einstaklingurinn nær fullkominni slökun og líkaminn er í mestu slökun sem verður við svefn. Þá hægist á líkamsstarfseminni, það hægir á hjartslætti, blóðþrýstingur lækkar og það hægir á öndun. Hitastig líkamans lækkar þegar kvölda tekur og meðan á svefni stendur og er lægst á IV stiginu.
Úr dýpsta stiginu eða stigi IV færist svefninn yfir á REM-stigið sem einkennist af hröðum augnhreyfingum. REM-stigið hefst oftast 1- 2 klukkustundum eftir að einstaklingurinn sofnar. Á REM-stiginu verður algjör vöðvaslökun í útlimum en REM-stigið kemur og fer um það bil 4-6 sinnum yfir nóttina eða nær yfir um það bil 20-25% af öllum nætursvefninum ef um nætursvefn er að ræða. REM-svefntímabilum fjölgar þegar nær dregur að morgni. Svefntruflun meðan á REM stiginu stendur ( einstaklingur vakinn) hefur áhrif á einbeitingu og afköst þess sem fyrir trufluninni verður. Truflun á svefni á REM stiginu hefur áhrif þreytu og úthald einstaklingsins.
Meðallengd svefns hjá fullorðnum einstaklingum er misjöfn, samkvæmt mælingum sem gerðar voru árið 2005 á 1500 fullorðnum einstaklingum kom í ljós að meðal svefntími þeirra var 6,8 klukkustundir í miðri viku en 7,4 klukkustundir um helgar (National sleep foundation, 2006). Þessar tölur sýna styttri svefntíma en niðurstöður annarrar rannsóknar þar sem spurt var um meðal annars um svefnlengd en sú rannsókn var gerð árið 1982 á 1.116 milljón bandarískum þátttakendum (American Cancer Society study, 1982). Samkvæmt þeirri rannsókn sváfu 52,4% þátttakenda í 7,5 klukkustundir (sama hvaða vikudag ) á nóttu. Svo virðist sem svefntími fari lækkandi samkvæmt niðurstöðum þessara tveggja rannsókna
ÁHRIF DÆGURSVEIFLA Á SVEFN
Svefn stjórnast af tveimur lífeðlisfræðilegum þáttum, svefnþörf einstaklingsins sem eykst í kjölfar fjölda vökustunda og dægursveiflum líkamans. Starfsemi líkamans stjórnast af dægursveiflunum sem endurtaka sig á 24 klukkustunda fresti eða svokallaðri innri líkamsklukku. Líkamsklukkan stjórnast af lífeðlisfræðilegu atferli líkamans á þessum 24 klukkustundum, svo sem hvenær seyting hormóna verður sem stjórnar meltingu, svefni og vökutíma okkar. Líkamsklukkan fínstillir sig með utanaðkomandi birtustigi sem sjónhimna augans nemur frá umhverfinu, það gerir hún með því að senda taugaboð til undirstúku heilans (suprachiasmatic nucleus, SCN). Frumur í SCN stýra dægursveiflum lífeðlisfræðilegra þátta, svo sem með seytingu hormóna (melatóníns og kortisóls) og stjórnun á hitastigi líkamans sem síðar hefur áhrif á svefn og vöku, árvekni og afköst einstaklingsins. Líkamshitinn fer lækkandi fram eftir kvöldi í takt við aukna syfju en er lægstur milli 03:00 og 06:00. Undir eðlilegum kringumstæðum á svefn sér stað fimm til sex klukkustunum áður en líkamshitastig nær lágmarki.
Seytun hormónsins Melatónin eykst þegar dimma tekur. Styrkur þess er hæst að nóttu til á milli 01:00 og 03:00 en fer lækkandi fram eftir morgni, klukkan 09:00 er framleiðslan í lágmarki. Meltatónín hefur áhrif á seytingu annarra hormóna, svo sem vaxtarhormónsins gónadótrópíns, oxýtósíns og kortísóns sem seytast frá afturhluta heiladinguls.
Þegar misræmi verður á dægursveiflum líkamans í kjölfar truflunar á birtustigi í umhverfi raskast framleiðsla Melatóníns en slík truflun getur orðið vegna óreglulegs vinnutíma (næturvinnu) eða í kjölfar flugferða yfir fleiri en fjögur tímabelti. Dæmi um slíkt gæti t.d. verið þegar flugþjónustuliði lendir eftir miðnætti samkvæmt líkamsklukkunni í Seattle eða Denver að sumri til og augað nemur glampandi sól í stað dimmu.Við það raskast framleiðsla Melatónins.
Almennt um svefn flugþjónustuliða. Samkvæmt rannsókn Herdísar Sveinsdóttur o.fl. sem gerð var árið 2000, töldu 65% íslenskra flugþjónustuliða sig ekki fá nægan svefn. 20% sváfu fimm klukkustundir eða minna fyrir morgunflug og 27% sváfu sex klukkustundir. Miðað við lágmarkssvefnþörfina, sem er um átta klukkustundir, er fimm til sex klukkustunda svefn of stuttur fyrir flugþjónustuliðann. Svefnþörf einstaklinga er þó vissulega misjöfn og því best að miða við þann svefntíma sem þjónustuliðar sofa að öllu jöfnu (meðaltal) yfir nóttu á heimili sínu og í fríi.
Niðurstöður viðamikillar rannsóknar, sem flugmálastjórn Bandaríkjanna gerði árið 2009 á þreytu þjónustuliða þar í landi, leiddi í ljós að 87% aðspurðra (n=10.550) þjónustuliða sögðust sofa styttra nóttina fyrir flugvaktir eða sex og hálfa klukkustund að meðaltali á móti tæplega átta klukkustunda svefni á frídegi. Spurt var einnig um gæði svefns að heiman og sögðust 18% þjónustuliða sofa mjög vel í erlendri höfn, 48% sögðust sofa frekar illa og 34% flugliða sögðust sofa mjög illa þegar þeir væru að heima. Þjónustuliðarnir töldu utanaðkomandi hljóð, hræðslu við að sofa yfir sig fyrir flugvakt, flugþreytu og rugling á líkamsklukkunni stuðla að verri svefni en ella. Niðurstöður rannsóknar Chung og Chung (2009) á lífsgæðum þjónustuliða á Taívan (n=270) sýndu að flugliðarnir töldu lífsgæði sín verri en ella sökum lélegs svefns. Taívönsku flugverjarnir tengdu lélegan svefn sinn við flugþreytu, óreglulegar flugvaktir, slæmar aðstæður heima fyrir til svefns og mikilla krafna í starfi sem þeir töldu sig eiga erfitt með að uppfylla. Þessar sömu niðurstöður koma víðar fram í rannsóknum þegar leitað er ástæðna fyrir lélegum svefni og svefnvandamálum hjá flugáhöfnum.
1. Svefnskortur
Svefnskortur og truflun á svefni getur orðið vegna andlegra, líkamlegra eða félagslegra þátta í umhverfi einstaklingsins, en þegar truflun verður á svefni er hætta á að sú hvíld, sem svefninn að öllu jöfnu veitir, verði ófullnægjandi. Erfiðleikar við að sofna og viðhalda svefni og svefnskortur eru meðal algengustu svefnvandamála og talið er að 20-40% fullorðinna einstaklinga þjáist af svefnvandmálum í heiminum. Ef svefnþörf er ekki fullnægt verður svokölluð „svefnskuld“ sem bæta þarf með lengri svefntíma; þeir sem „skulda svefn“ bæta sér hann oftast á frídegi eða um helgar. Ekki er mikið vitað um ástæður mismunandi þols fólks við of litlum svefni. Konur virðast þola svefnskort verr en karlar en þó hafa rannsóknir sýnt að viðhorf til starfsins, tryggð starfsmannsins við atvinnurekandann, frítími, þreyta, svefnskortur, svefntruflanir, félags- og fjölskylduaðstæður skipti þar meginmáli. Afleiðingar svefnskorts er minnkandi árverkni en hún er mest að morgni eftir góðan nætursvefn, en fer minnkandi yfir daginn og mælist minnst að nóttu til milli 4.00 og 7.00 að morgni til. Seinnipart nætur er mest hætta á óhöppum og mistökum sökum svefnsskorts og þreytu. Niðurstöður rannsókna á áhrifum svefnskorts á hæfni til vinnu sýna að 1-2 klukkustunda stytting á nætursvefni (ef
miðað er við 7 klst. svefn) í eina til tvær vikur hefur lítil áhrif á vitsmunalega getu einstaklingsins. Ef um lengri tíma er að ræða væri svefnskorturinn farinn að hafa áhrif á getu og frammistöðu einstaklingsins, þó er einstaklingsbundið hvað hver og einn þolir.
Eins og fram hefur komið hafa rannsóknir sýnt að svefnskortur hefur áhrif á líkamsstarfsemina, svefntruflanir og svefnleysi skerða ónæmiskerfi líkamans og það getur aukið hættu á sjúkdómum. Svefnskortur hefur áhrif á framleiðslu vaxtarhormóns (Human growth hormon) sem seytist úr heiladingli um leið og seyting á hormóninu melatónín verður. Seyting á þessu vaxtarhormóni er mikilvæg því hormónið stuðlar að eðlilegri skiptingu fruma líkamans og viðheldur eðlilegum vexti þeirra. Vaxtarhormónið lækkar einnig blóðsykur en eins og áður hefur komið fram getur svefnskortur stuðlað að sykursýki.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að mikil þreyta í kjölfar svefnskorts eða -svefntruflana lýsir sér á sama máta og áfengisneysla eða inntaka slævandi lyfja. Eftir 17-19 klukkustunda vöku mælist þreyta eins og 0,5‰? áfengismagn væri í blóði. Til viðmiðunar má áfengismagn í blóði ökumanns á Íslandi ekki vera hærra en 0,02‰. Þessi samlíking þreytu og áfengismagns í blóði hefur vakið fólk til umhugsunar um alvarleika þreytu hjá stéttum sem sinna ábyrgðarfullum störfum. Rannsóknir sýna að 65% slysa og óhappa, sem verða í flugsamgöngum, má rekja til mannlegra mistaka, en þar af eru 4-7% talin vera vegna ofþreytu og skorts á svefni flugáhafna, röskun á líkamsklukkunni eftir flugferðir yfir mörg tímabelti og ör vaktaskipti milli flugferða.
Hæfni einstaklinga til að taka mikilvægar ákvarðanir minnkar í takt við fjölda vökustunda og nær lágmarki eftir 40-72 klukkustunda vöku. Eftir þann tíma er hætta á að heilinn verði fyrir óbætanlegum skaða og lífslíkur einstaklingsins minnka í kjölfarið.
Vaktavinna hefur neikvæð áhrif á lengd svefns, því lengur sem vaktavinna varir því styttri verður svefninn og hætta er á að þreyta aukist við skertan svefn í lengri tíma. Við vaktavinnu er hætta á að dægursveiflur verði í mótsögn við ytra umhverfi, til dæmis þegar næturvakt lýkur og tími er til að ganga til náða þá er birtustig umhverfis í mótsögn við dægursveiflu líkamans. Framleiðsla hormónsins melatóníns, sem oft er kallað svefnhormónið, eykst þegar dimma tekur og stuðlar að syfju en þessi framleiðsla getur auðveldlega truflast við þá birtu sem augu starfsmannsins nema.
Þeir sem hafa stutta dægursveiflu, eru kvöldsvæfir en vakna snemma morguns, eru oft kallaðir a-manngerðin. Hinir eða b-manngerðin eiga gott með að vaka fram eftir kvöldi og
sofa fram eftir degi og hafa langa dægursveiflu. Þeir síðarnefndu eiga betra með að missa svefn og eru því betur fallnir til næturvinnu en a-manngerðin.
Eldra fólk er viðkvæmara fyrir að missa svefn og á því verra með að sinna vakta- og næturvinnu enda sýna dæmin að þeir sem komnir eru yfir þrítugt sækja minna í vaktavinnu en þeir sem yngri eru. Styttri svefn og svefnskortur meðal vinnandi fólks virðist haldast í hendur við auknar kröfur á vinnumarkaðnum og í ljós hefur komið í rannsóknum að verkamenn þjást frekar af svefnskorti en þeir sem eru hærra settir og vinna léttari vinnu.
2. Starfstengd þreyta
Þrátt fyrir að starfstengda þreytu sé að finna í 7-45% starfsstétta sýna rannsóknir að slík þreyta er mismikil eftir eðli og umfangi starfsins. Rannsóknir hafa t.a.m. sýnt að vaktavinna stuðlar að meiri þreytu en dagvinna, þá sérstaklega næturvinna. Sú truflun, sem verður á líkamsklukkunni í vakta- og næturvinnu, getur aukið líkur á ýmsum alvarlegum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, ýmiss konar sýkingum, krabbameini og þunglyndi. Í breskri þverskurðarannsókn, sem gerð var 1994 á útivinnandi körlum og konum, kom í ljós að 18% aðspurða töldu sig þjást af starfstengdri þreytu og sálrænni vanlíðan. Svipaðar rannsóknir voru gerðar í Ástralíu árið 1996 og Noregi en niðurstöður þeirra rannsóknanna sýndu að 22-25% útivinnandi norskra og ástralskra karla og kvenna töldu sig þjást af starfsþreytu og andlegri vanlíðan í kjölfarið. Þessir þátttakendur áttu það sameiginlegt að þeir töldu heilsu sína þokkalega, mjög margir þeirra bjuggu einir og voru með litla menntun. Einnig kom í ljós að aukin menntun helst í hendur við minni starfsþreytu og er það í takt við rannsóknir sem sýna að menntaðir einstaklingar búa við betra heilsufar og lifa lengur en þeir sem eru minna menntaðir. Einbúar og barnlausir kvarta frekar um þreytu en hinir sem eru í giftir eða í sambúð. Þeir síðarnefndu virðast samkvæmt rannsóknum þola áreiti og starfstengda þreytu betur en þeir sem búa einir og eru barnlausir. Þessar niðurstöður ættu ekki að koma á óvart þar sem bresk rannsókn, sem gerð var þar árið 1997, sýndi sömu niðurstöður, þ.e.a.s. einsemd getur stuðlað að þreytu og andlegri vanlíðan.
Þó menningarlegur munur sé á þessum rannsóknum og mismunandi orðalag á spurningum í listunum, sem getur haft áhrif á niðurstöður þessara rannsókna, sýna þær að einn þriðji hluti
vinnandi starfsmanna í þessum þremur löndum þjáist af þreytu sem hægt er að tengja við starf og lýðfræðilegan bakgrunn einstaklinganna. Starfstengd þreyta hjá þjónustuliðum Margar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á þreytu þjónustuliða í starfi, standa þar bandarískar rannsóknir upp úr því reglulega eru gerðar kannanir á þjónustuliðum þar í landi og skoðað hvaða þættir hafa áhrif á þreytu flugáhafna. Niðurstöður bandarísku rannsóknanna frá árunum 2007 og 2009 af bandarískum flugyfirvöldum (FFA) sýna að flugverjar (þ.e. bæði þjónustuliðar og flugmenn) tengja almenna þreytu og ofþreytu í starfi við þétta flugskrá, langar ferðir, stutta hvíld milli ferða, hvaða tíma sólarhringsins flogið er (næturflug, dagflug eða síðdegisflug). Ferðir, sem farnar eru yfir meira en fjögur tímabelti, auka þreytu og valda truflun á líkamsklukkunni. Í bandarískri rannsókn, sem framkvæmd var árið 2009, kom í ljós að níu af tíu þátttakendum töldu ofantalin atriði eða uppsetningu flugferða á flugskrá hafa mest að segja um þreytustig og líðan tengda starfi. Sömu niðurstöður fengustu í sambærilegri breskri rannsókn sem gerð var árið 2012 en í þeirra rannsókn voru rannsakaðar skýrslur sem flugáhafnir höfðu gert yfir óhöpp og slys sem hægt var að tengja við þreytu breskra flugáhafna. 27% óhappa eða slysa meðal bresku flugáhafnanna var hægt að rekja meðal annars til þreytu vegna tíðra flugferða og flugþreytu. Andlegs álags og mikilla krafna í starfi auki bæði andlega og líkamlega þreytu flugþjónustuliða. Flugþjónustuliðar standa mestallan tímann meðan á flugi stendur og gerðar eru kröfur til þeirra að framkvæma mörg störf á afar stuttum tíma Við slík vinnuskilyrði eykst hættan á andlegu álagi sem margir þjónustuliðar eiga erfitt með ráða við. Einnig er þarft að benda á að oft er lítill félagslegur stuðningur frá yfirmönnum þegar til þeirra er leitað, það eitt eykur andlegt álag sem síðan getur leitt til líkamlegra kvilla. Ekki má gleyma því að flestir einstaklinganna, sem starfa um borð, eru fjölskyldufólk og aðstaða til hvíldar því misgóð þegar heim er komið. Rannsókn, sem gerð var á indverskum þjónustuliðum (2007), sýndi svipaðar niðurstöður hvað andlegt álag varðar. 89% indversku flugverjanna sögðust finna fyrir miklu andlegu álagi í starfi sem stuðlaði að aukinni líkamlegri þreytu og andlegri vanlíðan þeirra á meðal. Yngri þjónustuliðar í umræddri rannsókn töldu sig eiga verra með að taka álaginu vegna svefnleysis sökum vinnuálags.
Afleiðingar þreytu
Starfsstéttir, sem sinna óreglulegum og löngum vinnuvöktum, eiga frekar á hættu að lenda í óhöppum en aðrar starfsstéttir. Sem dæmi sýndi rannsókn, sem gerð var á þreytu flutningabílstjóra Bandaríkjum árið 2009, sýndi mikla þreytu meðal starfsstéttarinnar. Langtímaakstur flutningabílstjóra, sér í lagi að nóttu til, er gott dæmi um starf sem veldur
mikilli þreytu starfsmanna vegna óreglulegs vinnutíma og svefnskorts. Notað var mælitæki sem mældi augnhreyfingar bílstjóranna á ákveðnum tíma, þannig var hægt að meta þreytuástand bílstjóranna með jöfnu millibili. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ökumennirnir voru þreyttir eftir langan akstur enda keyrðu ökumennirnir að mestu leyti að nóttu til. Talið er að 30-40% slysa meðal flutningabílstjóra séu afleiðing ofþreytu þeirra á meðal. Eins og áður hefur komið fram má rekja 27% óhappa hjá breskum flugáhöfnum til þreytu.
Oft þarf mælitæki sem sýnir tölur sem lýsa umfangi þreytu til þess að bæði sérfræðingar og ekki síður almenningur skilji alvarleika starfstengdrar þreytu eins og hér er lýst.