Fatique-grein eftir Ástu Kristínu Gunnarsdóttur

Í fyrri pistlum mínum um heilsu og líðan flugfreyja og -þjóna hef ég notað nafnið flugliðar yfir starfsstéttina. Samkvæmt Flugmálastjórn og reglugerð frá árinu 1999 eru þeir aðilar, sem sinna starfi um borð, nefndir flugverjar, ekki flugliðar. Nota ég það orð héðan í frá yfir flugfreyjur og -þjóna. Einnig nota ég orðið flugáhafnir en í þeim tilfellum á innihald textans bæði við flugverja og flugmenn.

Þreyta meðal flugverja er vanmetið vandamál Alvaran felst í því að flugverji getur verið illa fær um að sinna öryggi og meta aðstæður í starfi rétt vegna þreytu og vanlíðanar. Við slíkar aðstæður er öryggi bæði farþega og áhafnar ógnað. Áður en lengra er haldið er rétt að hugleiða hvað ofþreyta er. Ofþreyta „fatigue“ er lýsing á andlegu og líkamlegu ástandi sem flugverji getur fundið fyrir í löngum og erfiðum flugum. Ofþreyta flugverja er ólík þeirri þreytu sem einstaklingar á jörðu niðri finna fyrir eftir venjulegan starfsdag enda um ólíkt umhverfi og aðstæður að ræða. Flugþreyta, „jetlag“, er líkamleg og andleg þreyta eftir flugferð þegar flogið er yfir þrjú eða fleiri tímabelti og er oft undanfari ofþreytu hjá flugverjum.

Ofþreytan, sem flugverjinn finnur fyrir, veltur á þeirri hvíld (svefni) sem flugverjinn fékk áður en hann hóf flugvakt sína, hversu langt er síðan hann vaknaði og ekki síst lengd og gæðum svefnsins.

Ábyrgð áhafnar er mikil meðan á flugi stendur. Störfin um borð kalla á árvekni og viðbragðsflýti en það er það fyrsta sem minnkar þegar um mikla þreyta og syfju er að ræða, sér í lagi á næturflugum. Við aukna þreytu í starfi skerðist eðlileg rökhugsun, pirringur eykst og hætta á ótímabærum svefni ef flugverjinn nær að slaka á.

Hvenær er þreyta of mikil?

Það getur verið ákaflega erfitt að mæla þreytu hjá einstaklingum því engin mælitæki eru til sem mæla hversu mikil hún er. Því verður að taka mark á mati hvers og eins en dómgreind einstaklinga til að segja til um eigin þreytu er ofmetin. Til þess að flugverji teljist þokkalega úthvíldur verður hann að hafa sofið óslitið a.m.k. sjö til átta klukkustundir. Styttri svefn er ekki talinn nægjanlegur né uppfylla þá hvíldarþörf sem einstaklingur, sem vinnur óreglulega vaktavinnu, þarf á að halda. Allar fullyrðingar um að maðurinn geti náð viðeigandi hvíld eftir styttri svefn en sjö til átta klukkustundir eru rangar enda sýna niðurstöður rannsókna um svefnþörf mannsins allar sömu niðurstöður.

Af hverju eru flugáhafnir þreyttar?

Tækninni hefur fleygt fram. Hún hefur farið fram úr líkamlegu þoli og getu einstaklingsins. Nútímaflugvélar fljúga hratt yfir mörg tímabelti í einni flugferð. Aukin fluggeta nýjustu flugvéla felst meðal annars í því að þær geta verið lengur á lofti og ekki þarf að lenda með ákveðnu millibili til þess að „hvíla“ flugvélarnar en annað á í hlut hvað mannskepnuna áhrærir. Maðurinn er ekki vél og þarf að fá reglubundna hvíld sem er best fengin, eins og áður hefur komið fram, með góðum svefni. Segja má að rót þreytunnar hjá flugáhöfnum sé langar flugvaktir (lengri en 8 klst.), tíðar flugferðir, óreglulegur vinnutími, ónægur svefn og truflun á líkamsklukkunni í kjölfar flugferða yfir mörg tímabelti. Vaktavinna ruglar líkamsklukkuna, hún skerðir svefngæði og getur þannig haft áhrif á frammistöðu fólks í leik og starfi.

Af hverju er þetta ekki lagað?

•             Alvarleiki ofþreytunnar er stórlega vanmetinn. Ef til vill er

ofþreytan vanmetin vegna þess að flugverjinn áttar sig ekki á ástandi sínu eða hversu þreyttur hann er. Mjög þreyttur flugverji getur verið eins og undir áhrifum áfengis (samsvarandi 5% áfengismagni í blóði) og því óhæfur að taka mikilvægar ákvarðanir sem oft þarf að taka ef óvænt atvik koma upp. Eflaust hafa margir upplifað þá tilfinningu að finnast þeir léttir í höfðinu þegar flogið er frá vestri til austurs. Við þær aðstæður eru margir óhæfir til aksturs nákvæmlega eins og um áfengisneyslu sé að ræða.

•             Mistök í starfi eru ekki tengd við þreytu flugverjans (flugliðinn

missir hluti úr höndum, hrasar, man ekki hvað farþeginn vill drekka eða hvað hann ætlaði að ná í o.s.frv.).

•             Yfirmenn eru tregir til að viðurkenna að ofþreytu flugverja megi

rekja til starfsins. Mikil þreyta meðal flugverja getur bent til að bæta þurfi flugskrá eða þá stjórnunarlegu þætti sem geta haft áhrif á þreytu og vellíðan flugverja í starfi.

•             Flugverjarnir geta verið feimnir að viðurkenna að þeir séu þreyttir

og ef til vill illa hæfir að sinna starfi sínu og reyna þá að fela ástand sitt. (not fit to fly).

Hvað er þá til ráða fyrir þreytta flugverja?

Til þess að skilja vandann þarf að fræða þá sem að málinu koma um vaktavinna og hvernig langar flugferðir yfir mörg tímabelti geta ruglað líkamsklukkuna og orsakað ofþreytu á meðal flugáhafna. Án þeirrar kunnáttu og skilnings er hætta á að þeir þættir, sem stuðla að ofþreytu á meðal flugáhafna, verði ekki bættir. Hjá flestum erlendum flugfélögum fer fram sérstök fræðsla fyrir flugáhafnir um orsakir ofþreytu (fatigue), flugþreytu (jet-lag) og hvernig best er að vinna á þreytu tengdri örum flugferðum yfir mörg tímabelti. Slík fræðsla ætti að vera jafnsjálfsögð og öryggisþjálfun þar sem of þreyttir flugverjar eru ógn við öryggi um borð.

Flugverjar vinna á vöktum, þeir eru oft við störf þegar líkamsklukkan segir að þeir ættu að vera sofandi og þurfa eftir næturvaktir að sofa á daginn þegar líkamsklukkan er á skjön við vökuástand þeirra. Eitt af mikilvægustu atriðunum til að sporna við ofþreytu hjá flugáhöfnum er uppröðun flugvakta á flugskrá. Best er að þeim sé raðað upp þannig að flugáhafnir nái góðri næturhvíld á milli flugvakta og mæti úthvíldar á vakt. Ekki síður að flugverjar gefi sér tíma til þess hvílast á frívöktum.

Orsök ofþreytu hjá flugáhöfnum er talin vera 95% vegna svefnskorts og svefnvandamála frekar en streitu, kvíða eða óútskýrðra líffræðilegra þátta. Svefninn er eina hvíldin sem endurnærir líkama og sál. Ef aðstæður leyfa einungis stuttan svefn þá getur 20 mínútna svefn bætt líðan og árvekni. Margir eiga erfitt með að ná góðri slökun fyrir flugvakt og því er mikilvægt að reyna að draga úr allri streitu og skapa eins róandi umhverfi og hægt er til þess að geta sofnað. Sjálfsagt er að leggja sig ef þreyta segir til sín á miðjum degi, en sá svefn má ekki hafa áhrif á nætursvefninn. Reglubundin hreyfing, helst utan dyra, reynist mörgum góð endurnæring og stuðlar að betri nætursvefni. Þó getur mikil hreyfing fyrir svefn haft slæm áhrif á gæði hans.

Allri notkun á örvandi efnum, svo sem kaffi og nikótíni, er best að stilla í hóf fyrir svefn, en kaffi reynist mörgum vel þegar þreyta og syfja læðist að meðan á vinnu stendur. Fyrir þá sem ekki drekka kaffi er hægt að kaupa koffein tyggjó í Bandaríkjunum en áhrif þess eru þau sömu og að drekka kaffi.

Í þessum pistli hefur verið fjallað um ofþreytu og afleiðingar hennar.

Ég hef aðeins fjallað um aðalatriðin sem snerta ofþreytu. Næsti pistill fjallar um svefn og svefnvandamál sem snerta flugverja í tengslum við starf þeirra.

Heimildir

Stuðst var við fræðsluefni sem kynnt var á flug-læknaráðstefnu sem haldin var í Atlanta GA (Aerospace Medical Scientific meeting) í maí sl.