Um geimgeislun eftir Ástu Kristínu Gunnarsdóttir

Geimgeislun

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis á heilsu og líðan flugliða en eftirtaldir umhverfisþættir eru fyrst og fremst taldir hafa áhrif á þetta tvennt hjá flugáhöfnum og farþegum. Geimgeislun (cosmic rays) sem áhöfnin verður fyrir á flugi

  • Rafsegulbylgjur frá stjórntækjum í flugstjórnarklefa sem flugmenn verða fyrir.
  • Útblástur frá hreyflum sem berst inn í flugvélarrými sem bæði áhöfn og farþegar anda að sér.
  • Gæði andrúmslofts um borð (rakastig og mengun).
  • Óreglulegur svefn og síþreyta áhafna.

Í þessum pistil er sérstaklega fjallað um það geislaálag sem flugliðar verða fyrir og afleiðingar þess á heilsu þeirra.

Hvað eru geimgeislar?

Geimgeislarnir eru skaðlegir, jónandi geislar (ionising rays) sem þeytast um geiminn á ljóshraða. Sumir koma frá sólinni, aðrir utan úr óravíddum geimsins. Lofthjúpur og segulsvið jarðar veitir sterka vörn gegn þessum geislum, annars væri allt líf á jörðinni löngu útdautt. Flugvélar ferðast hátt uppi í lofthjúpnum þar sem minni vörn er fyrir þessum vágestum. Flugvélarskrokkurinn veitir litla vernd gegn sumum þessara geisla (sérstaklega gammageislum) og verða því bæði farþegar og flugáhafnir fyrir meiri geislun á flugi en væru þau á jörðu niðri. Segulsvið jarðar beinir, sem fyrr segir, geislum frá jörðinni og eru áhrif segulsviðsins mest við miðbaug. Þar mælist geislunin minnst en mest við norður- og suðurheimskautið. Hægt er að mæla geislunarálag. Mælieiningin er kölluð „Sievert“ eftir sænska eðlisfræðingnum sem skilgreindi hana og á hún við uppsafnaðan skaðlegan geislaskammt á líkamann á tilteknum tíma. Til þess að skilja hugtakið betur má líkja því við magn regnvatns sem safnast í tunnu á einhverjum ákveðnum tíma. Auk þess tekur mælieiningin Sievert tillit til mismunandi skaðsemi ólíkra geislategunda og er því beinlínis mælikvarði á skaðsemi geislunarinnar. Við yfirborð jarðar mælist styrkur geislunar mjög lágur en eykst því hærra sem farið er upp í lofthjúpinn. Aukningin verður svo mikil að geislamagn inni í flugvél, sem flýgur í 39.000 feta hæð, er 64 sinnum meiri en við yfirborð jarðar. Uppsafnaður geislaskammtur er því meiri því lengur sem dvalist er í háloftunum og því hærra sem farið er og loks skiptir máli á hvaða breiddargráðu ferðast er þar sem geislunin er meiri nær pólunum.

 

 

Flugáhafnir eru geislastarfsmenn

Samkvæmt íslenskum lögum  flokkast íslenskar flugáhafnir sem geislastarfsmenn en slíkan titil fá starfsstéttir sem vinna við jónandi geislun sem mælist um eða yfir 1 milliSievert (mSv) á ári. Meðalgeislaálag á flugáhafnarmeðlimi var árið 2008 2,15 mSv á ári. Árið 2009 var hún 2,13 mSv á ári, en árið 2010 var hún 2,31 mSv á ári. Hækkunina milli 2009 og 2010 má sennilega rekja til þess að áhafnameðlimir fljúga fleiri flugstundir og til fjarlægari  áfangastaða en áður. Vel má spyrja hvort þetta heildargeislaálag gefi rétta mynd af því geislaálagi sem flugáhafnir verða fyrir þar sem starfsmenn eru í misjöfnu starfshlutfalli en ekki er tekið tillit til þess þegar meðalgeislaálag flugáhafnameðlima er reiknað út.

Til samanburðar má geta þess að meðalgeislamengun, sem starfsmenn röntgendeilda sjúkrahúsa verða fyrir, mældist árið 2009  2,13 mSv á ári og meðalgeislaálag á starfsmenn kjarnorkuvera er 1,6 mSv á ári (Baris,2006). Þetta þýðir að eftir því sem best er vitað vera engar aðrar starfsstéttir verða fyrir jafnmikilli geislun og flugáhafnir.

Mælingar og eftirlit

Evrópusambandið setti lög um geislaálag árið 2000 og taka íslensk lagaákvæði mið af þeim lögum. Árið 2008 hóf Icelandair að mæla geislaálag á flugáhöfnum en það er eina flugfélagið hér á landi sem mælir geislaálag á flugáhöfnum. Evrópusambandið gerir ekki bara kröfur um persónulegar mælingar flugáhafna heldur fer það einnig fram á að flugáhafnir fái viðeigandi fræðslu um áhættu geimgeislunar. Sérstaklega skal hugað að barnshafandi flugliðum.                                                                                Samkvæmt geislavörnum ríkisins eiga flugrekendur að skipuleggja vinnu barnshafandi flugliða með ástand þeirra í huga. Því er mjög mikilvægt að barnshafandi flugliðar tilkynni sem fyrst um ástand sitt svo hægt sé að vernda þá gegn of miklu geisla- og flugálagi. Geislaálag á fóstrið má ekki fara yfir sem svarar til 1 mSv á ári frá því flugliði verður barnshafandi og þar til hann fer í barneignarfrí. Stundum vill það gleymast að fóstrið er ekki geislastarfsmaður þó móðir þess sé það. Skaðleg áhrif geislunar á fóstrið eru mest á fyrstu mánuðum þungunar.

Geislavarnir ríkisins og Flugmálastjórn vinna sameiginlega að eftirliti flugáhafna. Það er gert með sérstöku reiknilíkani og hugbúnaði sem áætlar geislaálagið á hvern og einn flugáhafnarmeðlim. Mælingarnar á geislaálagi flugliða miðaðist við eftirfarandi atriði:

  • Flugleiðir/breiddargráða flugsins, því norðar sem flogið er því meiri geimgeislun.
  • Flughæð, því hærra sem flogið er því meiri geimgeislun.
  • Flugtíma, því lengur sem flogið er því meiri geimgeislun verður flugáhöfnin fyrir.
  • Aðra þætti, svo sem sólgos en við þau eykst geimgeislun.

Öll þessi atriði skipta máli þegar horft er til geislamagns sem hver og einn flugliði verður fyrir.

Hvernig sér flugliðinn það geislamagn sem hann verður fyrir í flugi yfir árið?

Á síðunni Mywork getur hver og einn flugáhafnameðlimur séð það geislamagn sem hann hefur orðið fyrir í flugi síðastliðið ár. Þetta er einföld aðgerð: Farið er inn á mínar síður en þar er lína sem heitir Quick links. Undir henni er Geislamælingar-Globalog og undir þeim flipa lengt til hægri er fyrirsögnin: Cosmic Radiation 12 months. Undir þeirri línu neðst til hægri er heildargeislamagnstalan sem viðkomandi flugliði hefur fengið í flugi til dagsins í dag. Sjálf er ég í 67% starfi og mælist, þegar þetta er ritað, með 2,9 mSv á ári. Ég er sem sagt aðeins yfir meðalgeislaálagi flugliða Icelandair.

Miðað er við að hámarksgeislun, sem hver og einn áhafnameðlimur verður fyrir, fari ekki yfir 6 mSv á ári. Mér vitanlega hefur engin orðið fyrir svo mikilli geimgeislun.

Geimgeislun og heilsa flugáhafna

Hættulegustu áhrif geimgeislunar á líkamann eru þær breytingar sem geislunin getur haft á erfðaefni og  litninga  hinna ýmsu fruma líkamans. Afleiðingar skemmda á litningunum geta leitt til dauða eða skemmda á frumum. Frumuskemmdir af völdum geimgeisla (jónandi geisla) geta leitt til óeðlilegrar frumuskiptingar sem síðar getur orðið að krabbameini. Rannsóknir hafa sýnt fleiri áhrif geimgeislunar á líkamann, svo sem fósturskaða og erfðagalla, en þau áhrif verða ekki rakin hér enda hafa þau lítil áhrif þegar á heildina er litið.

Niðurstöður íslenskrar rannsóknar, sem gerð var fyrir 11 árum, þar sem skoðuð voru tengsl brjóstakrabbameins og starfsumhverfis flugliða, leiddi í ljós að hjá íslenskum flugáhöfnum greindust fleiri tilfelli brjósta- og húðkrabbameins en hjá öðrum starfsstéttum. Niðurstöður erlendra rannsókna sýna sömu niðurstöður, ásamt aukinni tíðni blöðruhálskirtilskrabbameins og hvítblæðis.

Ákjósanlegt væri að fleiri rannsóknir væru gerðar á geimgeislun og áhrifum hennar á íslenskar flugáhafnir. Hér á norðurhveli jarðar eru áhrif segulssviðsins minni og því meiri geislaáhrif en ella. Íslensku flugfélögin fljúga norðar en önnur flugfélög og því er íslenskum flugáhöfnum væntanlega hættara við geimgeislun. Öllum hlýtur að vera ljóst hve mikilvægt er að fræða starfsfólk um forvarnir, sem hægt er að beita til þess að koma í veg fyrir þá sjúkdóma sem geimgeislun getur valdið, og vernda þannig og efla heilbrigði flugáhafna.

Heimildir

Barish, J. Robert. (2006)  The invisable Passenger. Radiation Risk for People who fly. Advanced Medical Publishing, Inc.

Gael, P.,Blettner,M. og Zeeb, H. (2009). Epidemiological studies of Cancer in Aircrew. Radiation Protection Cosimetry, 136, 4, 232-239

Guðlaugur Einarsson, starfsmaður  hjá Geislavörnum Ríkisins  (Munnleg heimild, 2012).

Geislavarnir Ríkisins. Geimgeislun og geislun flugáhafna. Fræðsluefni sótt 12. september 2012  af http://www.gr.is/fraedsluefni/geislavirkni//nr/301

Gundestrup, M, og Storm,H,.(2000). Radiation-induced acute myeloid leukaemia and other cancers in commercial jet cocpit crew: a population based cohort study.  The Lancet, 354,9195, 2020-2031.

Luca, J.,Picco,S.,Maclntyre, C., Dulout, F., og Lopez, D. (2009). The Prevalence of Chromosomal Aberrations in Argentine Air Crew Members.  Archives of Environmental and Occupational Health,  64, 2, 101-105.

Lim, L.K. (2002). Cosmic rays: are air crew at risk?  Archives of Environmental and Occupational Health,  64, 2.

Lög um geislavarnir nr. 627/2003.

Ómar Sveinsson, starfsmaður Flugmálastjórnar Íslands (Munnleg heimild, 2012).

Rafnsson V, Tulinius H, Jónasson J,G, Hrafnkelsson J. (2001). Risk of breast cancer in female flight attendants: a population-based study (Iceland). Cancer Causes Control. 12, 95-101

Siew,N., Sambasivan,M,. og Zubaidah, S.(2011). Antecedents and outcome of flight attendant‘s job satisfaction. Journal of Air Transport Management. 17, 5, 309-313.