FORELDRAORLOF

Félagsmenn sem eiga börn undir 8 ára aldri eiga rétt a svokölluðu foreldraorlofi í allt að fjóra mánuði til að annast barn sitt. Um er að ræða ólaunað orlof sem að hvort foreldri um sig á rétt á.

Foreldri á rétt á að taka orlofið í einu lagi en með samkomulagi við vinnuveitanda er hægt að haga orlofinu með öðrum hætti, t.d. skipta því niður á fleiri tímabil eða taka það samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun orlofsins.

 

Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Á það við hvort sem starfsmaðurinn hefur verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið. Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs. Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar. Skal það gert skriflega, ástæður tilgreindar og ef um frestun er að ræða skal tekið fram hve lengi frestunin varir. Frestun er eingöngu heimil þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis sem gera slíkt nauðsynlegt.

Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins. Við lok orlofsins skulu þessi réttindi gilda, sem og breytingar sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga.

Þá má einnig benda á að ef barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun áður en það verður 18 ára þá verður réttur til foreldraorlofs aftur virkur, hafi hann ekki verði fullnýttur.

Sjá nánar í VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 http://www.althingi.is/lagas/140b/2000095.html